Forsíða > Prentvænt

Frumvarp til fjárlaga 2007 lagt fram

4. október 2006

Frumvarp til fjárlaga var lagt fram á fyrsta degi haustþings, mánudaginn 2. október, eins og venja er. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að fjárframlög til framhaldsskóla greidd úr ríkissjóði verði árið 2007 15.570 milljónir króna. Framlög til Menntaskólann við Sund hækka um 6,9% frá fjárlögum síðasta árs sem svarar um það bil til umsaminna launa- og verðlagsbreytinga milli ára. Er þetta nokkuð undir meðaltalshækkun til framhaldsskólanna. Þó verður að gæta þess að mismikil hækkun til einstakra skóla getur stafað af breytingum á áætluðum nemendafjölda og breyttu námsframboði.

Ef tekið er tillit til þess að í frumvarpi til fjárlaga 2007 er miðað við fleiri ársnemendur við MS (757 ársnemendur í stað 721) en árið áður er raunhækkun til skólans á milli ára aðeins um 1% sem er langt undir umsömdum launa- og verðlagsbreytingum. Helsta skýring þessa er sú að framhaldsskólunum er gert að spara um 300 milljónir króna með auknu aðhaldi. Er farin sú leið að í reiknilíkani fyrir framhaldsskóla er breytt hópaviðmiðum í fagbóklegum áföngum, tölvuáföngum og raungreinaáföngum auk þess sem þar er gerð krafa um betri nýtingu í almennu bóknámi. Með þessum breytingum á líkaninu lækka framlög til skólanna um 300 milljónir.

Almennt má segja að erfitt er að sjá að skólarnir geti brugðist við aukinni kröfu um nýtingu. Flestir þeirra hafa nú þegar nýtt sér allar þekktar leiðir til hagræðingar. Þannig er líklegt að rekstrargrunnur þeirra verði veikari við áðurnefndar breytingar. Fyrir skólana gæti skipt máli að í frumvarpi til fjárlaga 2007 má ætla að áætlaður nemendafjöldi sé nær rauntölum en áður hefur verið. Þetta skiptir máli þar sem reynslan hefur sýnt að allur gangur er á þvi hvort skólar hafa fengið fulla greiðslu fyrir alla sína nemendur sem eru umfram tölur um fjölda nemenda í fjárlögum. Hversu þungt þetta vegur á því eftir að koma í ljós.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir verulega auknu fé til námsefnisgerðar, gert er ráð fyrir fjármagni vegna vinnu við breytta námskipan til stúdentsprófs auk þess sem fjárframlög vegna námsorlofa kennara eru hærri en áður. Framlag til ný- og viðbygginga við framhaldsskóla í Reykjavík er um 190 milljónir króna í frumvarpinu en að auki er sérstakt framlag til byggingaframkvæmda við Menntaskólann í Reykjavík.

Í frumvarpi til fjárlaga eru því umtalsverðar breytingar frá síðastu fjárlögum. Ýmsar breytingar sem þar eru kynntar eru jákvæðar fyrir skólana. Hér má nefna greinilega tilraun til þess að vera með eins réttar nemendatölur og unnt er í áætlunum, hækkun á framlagi til námsefnisgerðar, hækkun framlags vegna námsorlofa, fjármagn til byggingaframkvæmda við framhaldsskóla, breytingar á skilum fjármuna vegna sérdeilda við framhaldsskóla og fleira.

Leiðin sem valin er til þess að ná fram auknu hagræði er hins vegar slæm að mínu viti. Með henni er verið að hræra í reiknilíkaninu sem er þess eðlis að um það verður að ríkja sátt. Breytingin "felur" vandann og með henni eru gerðar kröfur um hagræðingu sem vitað er að margir skólar ráða ekki við. Engin verkefni og engar skyldur eru teknar af skólunum samfara því að framlög eru skert með þessum hætti um tæp 2%. Hreinlegra hefði verið, til að ná fram hagræðingu, að ráðast ekki í ný verkefni, fresta ákveðnum verkum eða styðja sérstaklega við þá skóla þar sem kostnaður á hvern ársnemanda er undir landsmeðaltali. 

Már Vilhjálmsson rektor

 

Eldri fréttir


Menntaskólinn við Sund | Gnoðarvogi 43, 104 R.vík | Sími skrifstofu: 5807300 | msund hjá msund.is
Ábyrgðarmaður: Már Vilhjálmsson | Þessi síða var síðast uppfærð 21.03.2004